Gengi íslensku krónunnar hefur haldið áfram að styrkjast upp á síðkastið. Gengi krónunnar hefur styrkst um 4,61% síðastliðinn mánuð, en frá áramótum hefur gengi krónunnar styrkst um 1,27%. Síðastliðin ár hefur krónan styrkst um 16,52%, miðað við upplýsingar um helstu gjaldmiðla á Keldunni.

Viðskiptablaðið gerði veikingu krónunnar í upphafi árs að umfjöllunarefni sínu . Þann 14. janúar hafði krónan veikst nokkuð gagnvart helstu gjaldmiðlum erlendum. „Ef tekið er mið af miðgengi samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands hefur krónan veikst um 3,39% gagnvart Bandaríkjadal frá árslokum 2016, um 1,81% gagnvart breska pundinu, um 2,98% gagnvart evru og 2,99% gagnvart dönsku krónunni,“ sagði í grein Viðskiptablaðsins frá upphafi árs.

Það hefur þó orðið nokkur breyting á því en síðastliðinn mánuð þá hefur krónan styrkst um 2,32% gagnvart Bandaríkjadal á þessu ári og um 4,17% á síðastliðnum mánuði. Síðastliðið ár hefur krónan styrkst um 14,31% gagnvart dollaranum, ef tekið er mið á tölum Keldunnar um helstu gjaldmiðla. Miðgengi dollarans er nú 110,76 krónur.

Ef litið er til pundsins þá er sama upp á teningnum. Það sem af er ári hefur gengi krónunnar gagnvart pundi styrkst um 1,12% - eða um 4,20% á síðastliðnum mánuði. Síðastliðið ár hefur krónan styrkst um 14,31% gagnvart pundinu. Miðgengi pundsins er nú 137,30 íslenskar krónur.

Krónan hefur sömuleiðis styrkst um 1,75% gagnvart evrunni frá áramótum og 5,18% á síðastliðnum mánuði. Síðastliðið ár hefur krónan styrkst um 17,99% gagnvart evrunni. Miðgengi evrunnar er nú 116,70 íslenskar krónur.

Hægt er að líta yfir sviðið á þróun helstu gjaldmiðla á vefsíðu Keldunnar.