*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 26. nóvember 2004 16:50

Gengi krónunnar sveiflaðist á þröngu bili

Ritstjórn

Gengi krónunnar sveiflaðist á þröngu bili í dag og hækkaði um 0,08%. Hagstofan birti í morgun vöruskipti við útlönd og voru þau neikvæð um 4,6 milljarða króna í október. Tölurnar voru í takt við væntingar og hreyfðu lítið við gengi krónunnar.

Gengi USD hélt áfram að lækka og fór yfir 1,3300 (Fór hæst í 1,3329) gagnvart EUR. Ástæðuna má rekja til þess að meðlimur seðlabankaráðs Kína lét hafa eftir sér að kínverski seðlabankinn hafi minnkað stöðu sína í bandarískum skuldabréfum og samhliða minnkað dollaraeign í gjaldeyrissjóðum sínum. Gengi kínverska gjaldmiðilsins yuan er fest við gengi USD í 8,28. Mikill þrýstingur er á kínverska seðlabankann að láta af fastgengisstefnunni m.a. til þess að laga viðskiptahalla Bandaríkjanna. Kínverjar flytja mikið út af vörum til Bandaríkjanna og ljóst að ef gengi yuan yrði leyft að hækka gagnvart dollara mundi USD lækka verulega gagnvart öðrum gjaldmiðlum í Asíu t.d. JPY.

Gengi JPY náði fjögurra og hálfs árs hámarki gagnvart USD. Gengi USD hækkaði þegar leið á daginn einkum vegna ótta við inngrip Seðlabanka Evrópu og Japan. Seðlabankar grípa oft inn í markaði þegar viðskipti eru strjál eins og í dag en gjaldeyrisviðskipti eru nú með minnsta móti í Bandaríkjunum vegna frídags í gær. Gengi USD hefur lækkað um tæp 9% gagnvart EUR og JPY og tæp 8% gagnvart ISK frá því í október.
Gengisvísitala krónunnar byrjaði í 118,60 og endaði í 118,50. Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri var 3,7 milljarðar ISK.

EURUSD 1,3265
USDJPY 102,70
GBPUSD 1,8940
USDISK 65,30
EURISK 86,60
GBPISK 123,70
JPYISK 0,6360
Brent olía 43,15
Nasdaq 0,30%
S&P 0,30%
Dow Jones 0,15%

Byggt á upplýsingum frá Íslandsbanka.