Árangur hvað varðar gjaldmiðilinn er blendnari en árangur í að draga úr halla á ríkissjóði og endurreisn fjármálakerfisins, ef borin er saman upphafleg áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og staðan í dag. Þetta segir greining Íslandsbanka í Morgunkorni í dag. Greining fjallar þar um lok endurreisnaráætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda, sem er nú formlega lokið.

„Vissulega tókst að koma í veg fyrir algert hrun krónu með umfangsmiklum gjaldeyrishöftum og aðhaldssamri peningamálstefnu. Hins vegar er gengi hennar, nú tæpum þremur árum seinna, enn á svipuðum slóðum og í nóvemberlok 2008 þegar upphaflega áætlunin var samþykkt, þótt í henni hafi verið gert ráð fyrir styrkingu krónunnar á tímabilinu,“ segir í Morgunkorni.

„Þá eru gjaldeyrishöft enn víðtæk, og að sumu leyti strangari en þau voru við upphaf áætlunarinnar, þrátt fyrir að í henni hafi verið gert ráð fyrir að þau yrðu afnumin á áætlunartímanum sem þá var reiknað með að yrði um tvö ár. Höftin koma í veg fyrir að þau kerfislægu vandamál sem enn eru í íslensku efnahagslífi endurspeglist af fullum þunga í efnahagsframvindunni. Loks ber að minnast á að sjóðurinn lagði, þegar fram í sótti, nokkra áherslu á mótun framtíðar peningastefnu fyrir landið á seinni hluta áætlunarinnar. Ekkert liggur hins vegar enn fyrir um slíka stefnu, og virðast ríkisstjórnarflokkarnir raunar hafa býsna ólíkar hugmyndir um fyrirkomulag hennar til lengri tíma litið.“

Greinina má lesa hér .