Gengi krónunnar gagnvart evru hefur veikst töluvert upp á síðkastið og hefur evran ekki kostað meira á innlendum milibankamarkaði frá því í lok maí 2010.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

„Þessi hreyfing á gengi krónunnar kemur ekki spánskt fyrir sjónir enda þarf ekki mikið til þess að hreyfa við gengi myntar þar sem flæði á gjaldeyrismarkaði er jafn takmarkað og hér á landi. Þó er ekki hægt að svara því með óyggjandi hætti hvað sé að valda þessari lækkun krónunnar en telja má upp nokkra þætti sem hér geta átt hlut að máli.

Má hér m.a. nefna kaup Seðlabankans á gjaldeyri, ekki síst undir lok síðasta árs, vaxtaútflæði til erlendra eigenda ríkisbréfa, lítið ferðamannainnflæði og auk þess gætu greiðslufrestir innflutningsaðila á jólainnkaupum, eða greiðslur fyrir nýjar vörur við útsölulok, einnig komið hér við sögu.

Við teljum að það sé ekki mikil innistæða til styrkingar krónunnar á næstunni, þá vegna sömu þátta og taldir eru upp hér á undan sem koma í veg fyrir styrkingu krónunnar en þar sem gjaldeyrishöftin eru enn við lýði þá er afar ólíklegt að mikil veiking krónunnar eigi sér stað. Með hækkandi sól gæti síðan krónan fengið styrkari stuðning, t.d. vegna aukins ferðamannainnflæðis og innstreymis gjaldeyris tengt erlendri fjárfestingu,“ segir í Morgunkorni.