Marel hækkaði um 1,55% í kauphöllinni í dag, í 655 krónur, og hefur gengi bréfa félagsins aldrei verið hærra, eftir 308,9 milljóna króna viðskipti. Bréf félagsins fóru þar með yfir 648 krónu markið þegar gengi þeirra fór sem hæst 17. janúar síðastliðinn, en síðan lækkaði það og fór lægst í 480 krónur 18. mars síðastliðinn. Hækkun bréfanna síðan þá nemur 37,3%.

309 milljóna viðskiptin með bréf Marel voru samt sem áður ekki mestu viðskiptin með einstök bréf í kauphöllinni í dag, heldur voru mestu viðskiptin með bréf Arion banka, eða fyrir 418,3 milljónir króna, og hækkaði gengi bréfa bankans um 3,27%, upp í 60 krónur í viðskiptunum.

Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Festi, eða fyrir 217,3 milljónir króna en gengi bréfa félagsins hækkuðu um 3,28%, í 126 krónur. Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag voru fyrir 2,2 milljarða króna, og hækkaði Úrvalsvísitalan í þeim um 2,14%, upp í 1.956,71 stig.

Öll félög utan þriggja hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, þar af hækkaði gengi bréfa Icelandair mest, eða um 9,80%, upp í 1,68 krónur, í þó ekki nema 13 milljóna króna viðskiptum. Brim hækkaði næst mest í virði, eða um 5,0%, í 90 milljóna viðskiptum og endaði gengi bréfa sjávarútvegsfyrirtækisins í 42 krónum.

Tvö félög lækkuðu í virði í viðskiptum dagsins, Eimskipafélag Íslands sem lækkaði um 2,99%, niður í 130 krónur í 3 milljóna viðskiptum og Síminn sem lækkaði um 0,67%, niður í 5,97 krónur í 93 milljóna króna viðskiptum.