Úrvalsvísitalan hækkaði um hálft prósent í dag og stóð í fyrsta sinn yfir 3.300 stigum við lokun Kauphallarinnar. Marel hækkaði mest allra félaga aðalmarkaðarins eða um tæplega eitt prósent í 672 milljóna króna veltu. Marel hefur hækkað um 12% síðastliðinn mánuð og endaði daginn í 943 krónum á hlut, sem er hæsta hlutabréfagengi í sögu félagsins.

Mesta hækkunin var þó hjá Play á First North markaðnum en flugfélagið hækkaði um 4,3% í 68 milljóna veltu. Hlutabréfaverð Play stendur nú í 21,5 krónum á hlut sem er 7,5% yfir genginu í útboði félagsins í lok júní. Icelandair hækkaði einnig um 0,3% í viðskiptum dagsins.

Festi lækkaði mest allra félaga Kauphallarinnar eða um 1,2% í 130 milljóna veltu. Smásölufyrirtækið hefur engu að síður hækkað um 19% frá áramótum. Festi birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar en þar kom fram að hagnaður félagsins hafi verið tæplega tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra og nam 1,1 milljarði króna.