Gengi hlutabréfa Marel hefur fallið um 5,22% það sem af er dags. Fyrirtækið skilaði uppgjöri í gær sem var undir væntingum.

Hagnaður Marel á þriðja ársfjórðung nam 8,4 milljónum evra sem er 20% samdráttur á milli ára. Forstjórinn Theo Hoen sagði uppgjörið endurspegla hægan vöxt í heimshagkerfinu sem hafi skapað óvissu og tafið fjárfestingar. Hann sagði jafnframt niðurstöðuna undir væntingum. Á hinn bóginn benti hann á í fjárfestakynningu fyrirtækisins í morgun að Marel verði í stakk búið þegar markaðurinn tekur við sér á ný.

Gengi hlutabréfa Marel stendur nú í 127 krónum á hlut og hefur það ekki verið lægra síðan rétt eftir síðustu áramót.