Hlutabréf Match Group, móðurfélag ýmissa stefnumótaforrita líkt og Tinder, hækkuðu um meira en 12% í gær en félagið birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung sem var umfram vonir fjárfesta. Tekjur félagsins námu 555 milljónum dollara og jukust um 12% á fjórðungnum. WSJ greinir frá.

Virkni notenda á stefnumótaforritum jókst verulega í faraldrinum en Match Group sagðist einnig hafa séð aukinn vöxt áskrifenda og meðaltekjur á hvern notenda hækkuðu frá því í byrjun maí.

Einnig kom fram að virkni notenda og fjöldi nýrra áskrifenda á Tinder hafi haldið áfram að aukast í júlí en tekjur af Tinder jukust um 15% milli ára á ársfjórðungnum samanborið við sama tímabil í fyrra. Forritið Hinge, sem er hannað með aukna áherslu á sambönd, varð arðbært í fyrsta skipti, töluvert á undan áætlun.