Hagfræðideild Landsbankans hefur gefið út uppfært verðmat á N1 í kjölfar ársuppgjörs félagsins og metur nú félagið á 32,5 krónur á hlut, sem er 18,7% hærra en dagslokagengi félagsins í gær. Mælir greiningardeildin því með kaupum í félaginu.

Í greiningu bankans segir meðal annars að EBITDA félagsins sé á uppleið. Gert er ráð fyrir hóflegum vexti tekna og talið líklegt að lægra verð á olíu haldist eitthvað fram eftir ári. EBITDA spá stjórnenda fyrirtækisins fyrir þetta ár er á bilinu 2.800 til 2.900 milljónir króna, og telur greiningardeildin að félagið verði fyrir ofan neðri mörk hennar.

Gengi bréfa N1 hefur hækkað mikið það sem af er degi eða um 4,57% eins og staðan er núna. Stendur gengið þannig í 28,6 krónum á hlut og er því enn nokkuð undir verðmati greiningardeildar Landsbankans.

Sjóvá hækkar í verði

Gengi bréfa Sjóvár hefur einnig hækkað mikið það sem af er degi eða um 3,08% í 174 milljóna króna veltu. Gengi bréfanna hefur hækkað mikið frá því í síðustu viku þegar félagið kynnti ársuppgjör sitt, eða um rúm 10%.

Telja greiningaraðilar að hækkun dagsins megi meðal annars rekja til lítils framboðs á bréfum félagsins.