Hlutabréfaverð Netflix hefur fallið um 26% í viðskiptum eftir lokun markaða í gær. Í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs, sem birt var í gær, kom fram að áskrifendum streymisveitunnar fækkaði í fyrsta sinn í meira en áratug.

Áskrifendum fækkaði um 200 þúsund á fyrsta ársfjórðungi og fyrirtækið á von á að þeim muni fækka um 2 milljónir til viðbótar á yfirstandandi fjórðungi. Fjárfestar áttu von á að áskrifendum myndi fjölga um 2,6 milljónir talsins á fyrsta fjórðungi, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Útlit er fyrir að áskrifendur Netflix verði um 7,8 milljónum færri í lok fyrri árshelmings en fjárfestar reiknuðu með.

Netflix telur að samdráttinn megi rekja til mettunar á streymisveitumarkaðnum ásamt aukinni samkeppni frá streymisveitum Disney, Warner Bros Discovery og Paramount. Netflix hyggst bregðast við samdrættinum með því að leita leiða til að rukka um 100 milljónir heimila sem nota aðgang annarra áskrifenda.

Reed Hastings, annar forstjóra Netflix, sagði að samnýting aðganga hefði ávallt verið vandamál hjá streymisveitunni en að nú væri það í fyrirrúmi. „Þegar við vorum að vaxa hratt þá var þetta ekki í forgangi en núna erum við að keppast við að leysa þetta vandamál,“ hefur FT eftir Hastings.