Tekjur íþróttavöruframleiðandans Nike námu 12,7 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins og jukust um 4% milli ára. Þetta kemur fram í grein Wall Street Journal. Þá nam hagnaðurinn 1,5 milljörðum dala og dróst saman um fimmtung á milli ára.

Gengi bréfa félagsins lækkaði um 10% við birtingu uppgjörsins. Birgðir félagsins jukust um 44% milli ára og námu 9,7 milljörðum dala, en í faraldrinum varð mikil seinkun á afhendingu á vörum félagsins. Birgðaskortur var hjá félaginu í faraldrinum og gekk erfiðlega að annast eftirspurn.

Nú er staðan hins vegar allt önnur. Félagið hefur aukið afslætti af vörum sínum í sumar og segir Matthew Friend, fjármálastjóri Nike, að afslættirnir muni halda áfram í vetur.