Gengi hlutabréfa finnska farsímaframleiðandans Nokia hrundi um 18% þegar verst lét á erlendum mörkuðum í dag eftir að stjórnendur félagsins greindu frá því að afkoma félagsins yrði verri á fyrri helmingi rekstrarársins en búist var við. Mestu munar um að samkeppnin var harðari á nýmörkuðum en stjórnendur Nokia höfðu reiknað með og skilaði það sér í minni sölu á farsímum þar en búist var við.

Í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial Times er haft eftir Stephen Elop, forstjóra Nokia, að farsímasala á fyrsta fjórðungi ársins hafi verið undir væntingum. Óvíst sé hvort bjartara verði framundan á yfirstandandi ársfjórðungi. Elop sagði stjórnendur hafa ákveðið að gefa í og fara hraðar inn í þær breytingar sem eiga að reisa reksturinn við. Elop tók við af Olli-Pekka Kallasvuo seint í september í fyrra og var það hans fyrsta verk að reyna að koma Nokia aftur á stall með helstu farsímaframleiðendum heims eftir að Apple og hin ýmsu fyrirtæki sem framleiða snjallsíma sem keyra á Android-stýrikerfi fleygðu því ofan af stalli sínum.

Flaggskip Nokia um þessar mundir eru Lumia-farsímarnir sem keyra á Windows-stýrikerfi fyrir snjallsíma frá Microsoft. Mikils er vænst af græjum undir því nafni. Nýjasti síminn, Lumia 900 kom á markað í síðustu viku trónir nú á toppi list bandarísku netverslunarinnar Amazon yfir mest seldu farsímana.