Hlutabréfaverð Nova hefur hækkað um 4% í 86 milljóna króna viðskiptum í dag og stendur nú í 4,72 krónum á hlut. Það stefnir í að gengi félagsins endi daginn í sínu hæsta gengi frá skráningu í Kauphöllina þann 21. júní síðastliðinn.

Í aðdraganda skráningarinnar réðst Nova í 8,7 milljarða króna almennt hlutafjárútboð í júní þar sem seldur var 44,5% hlutur í fjarskiptafélaginu. Útboðsgengið var 5,11 krónur á hlut.

Hlutabréfaverð Nova lækkaði um 9,4% á fyrsta viðskiptadeginum í Kauphöllinni. Gengi félagsins hélt áfram að lækka næstu vikurnar og fór lægst í 4,24 krónur á hlut þann 3. ágúst síðastliðinn. Gengi Nova hefur nú hækkað um 11,3% síðustu vikuna og sem fyrr segir stendur nú í 4,72 krónum á hlut. Hlutabréfaverð félagsins er nú 7,6% undir útboðsgenginu.