*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 6. september 2021 16:07

Gengi Origo nær 60 krónum í fyrsta sinn

Hlutabréfaverð Origo hækkaði um 7% í viðskiptum dagsins hefur nú þrefaldast frá því í mars 2020.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Úrvalsvísitalan náði nýjum hæðum í 3.443,9 stigum eftir 0,6% hækkun í dag. Þrettán af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar voru græn í viðskiptum dagsins en heildarvelta á markaðnum nam 5,4 milljörðum króna.

Origo hækkaði mest allra félaga, um 7,14% og náði sínu hæsta hlutabréfagengi frá skráningu í 60 krónum á hlut. Upplýsingatæknifyrirtækið hefur hækkað um 18% á einum mánuði. Ef horft er eitt og hálft ár aftur í tímann þá hefur hlutabréfaverð Origo þrefaldast.

Nærri helmingur veltunnar á aðalmarkaðnum var með hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni. Mestu viðskiptin voru með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 2,4% í meira en eins milljarðs veltu. Gengi Arion náði methæðum í 174 krónum á hlut en bankinn hefur hækkað um 81,6% í ár. Arion tilkynnti í dag um nýtt svið ásamt því að Ólafur Hrafn Höskuldsson hafi verið ráðinn fjármálastjóri. Gengi Kviku banka rauf einnig 25 krónu múrinn í fyrsta sinn eftir 1,6% hækkun í dag.

Síminn lækkaði um 1,7% í nærri 300 milljóna veltu í dag. Smásölufyrirtækin Hagar og Festi lækkuðu sömuleiðis bæði um 0,3%-0,5% í viðskiptum dagsins.

Stikkorð: Origo