Gengi hlutabréfa króatíska samheitalyfjafyrirtækisins Pliva náði enn og aftur methæðum í gær og endaði í 830 króatískum kúnum á hlut við lokun markaðar á mánudaginn, samkvæmt upplýsingum frá kauphöllinni í Zagreb.

Gengið hækkaði um 0,12% í viðskiptum gærdagsins og hækkaði umfram króatísku Úrvalsvísitöluna, sem hækkaði um 0,11%. Króatíska Úrvalsvísitlalan inniheldur 23 stærstu skráðu félögin.

Sérfræðingar segja að hækkunina megi rekja til baráttu Actavis og bandaríska félagsins Barr Pharmaceuticals um að kaupa Pliva.

Actavis hefur gert formlegt tilboð í Pliva að virði 795 króatískar kúnur á hlut, en tilboð bandaríska keppinautarins nemur 755 kúnum á hlut. Kauptilboð Actavis samsvarar um 175 milljörðum króna.

Barr sagði eftir að Actavis birti formlegt tilboð sitt á fimmtudaginn í síðustu viku að fyrirtækið myndi svara þann 8. september. Búist er við að Barr muni ákveða að hækka kauptilboð sitt.