Gengi rússnesku rúblunnar hefur fallið um 4,31% í dag og kostar einn bandaríkjadollari nú meira en 60 rúblur. BBC News greinir frá þessu.

Gjaldmiðillinn varð fyrir metgengislækkun í byrjun mánaðarins þegar gengið féll um meira en 8% á einum degi. Seðlabanki Rússlands hefur gert tilraunir til að stemma stigu við lækkuninni en það hefur gengið fremur illa. Þannig hefur hann til dæmis hækkað stýrivexti úr 8% í 10,5% á síðustu tveimur mánuðum. Rúblan heldur hins vegar áfram að lækka.

Lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu auk viðskiptaþvingana hefur áhrif á gengið sem hefur nú lækkað um 45% frá áramótum. Þá virðist rússneskum stjórnvöldum einnig ætla að mistakast að halda niðri verðbólgu, en búist er við að hún verði búin að aukast um 10% í lok ársins.