Gengi hlutabréfa suður-kóreska raftækjaframleiðandans Samsung féll um 6,18% í kauphöllinni í Seúl í nótt eftir að greiningaraðilar lækkuðu mat sitt á félaginu. Greinendur segja forsendurnar fyrir matinu þær að dregið hafi úr sölu á farsímunum Galaxy S4 sem tiltölulega nýverið komu á markað og eftirspurnin nú minni í Suður-Kóreu og Evrópu en áður auk þess sem málaferli Samsung og Apple geti haft neikvæð áhrif á félagið. Þá telja greinendur að það uppátæki Apple að gera eigendum iPhone-síma kleift að skipta út gömlum símum fyrir nýja geta haft neikvæð áhrif á Samsung.

Í umfjöllun Reuters-fréttastofunnar segir m.a. að greinendur telji áhrifin af þessu öllu meðal annars geta valdið því að afkoma Samsung dragist saman á þessu ári og því næsta. Af þessum sökum m.a. tilkynnti matsfyrirtækið Fitch í gær að það ætli ekki að uppfæra lánshæfiseinkunni fyrirtækisins.