Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,1% í 1,8 milljarða króna veltu Kauphallarinnar í dag. Arion banki hækkaði mest eða um 3,1% í 312 milljóna viðskiptum og standa bréf bankans nú í 69,9 krónum á hlut. Reginn lækkaði mest allra félaga eða um 1,2% í 69 milljóna veltu.

Mesta veltan var með bréf Festi sem hækkuðu um 2,2% í 349 milljóna veltu. Gengi Festi hefur hækkað um 7,6% frá því á fimmtudaginn í síðustu viku. Tryggingafélögin þrjú hækkuðu öll í dag. Sjóvá hækkaði um 1,7%, TM um 1,3% og Vís um tæplega 1%.

Síminn hækkaði næst mest í dag eða um 2,2% í 338 milljóna viðskiptum. Bréf fjarskiptafélagsins standa nú í 6,53 krónum á hlut sem er jafnframt hæsta gengi félagsins frá skráningu í Kauphöllina árið 2015.