Hlutabréfaverð Símans hefur hækkað um 3,9% í fyrstu viðskiptum dagsins og stendur nú í 10,8 krónum á hlut. Benda skal þó á að velta með bréf félagsins er enn innan við 50 milljónir króna það sem af er degi. Í gærkvöldi var tilkynnt um að Samkeppniseftirlitið hefði framlengt frestinum til að ljúka rannsókn á sölu Símans á Mílu til Ardian um tuttugu virka daga eða til 15. september næstkomandi að beiðni Ardian.

Í tilkynningunni kom fram að Samkeppniseftirlitið hefði tjáð Ardian að þær tillögur sem lagðar voru fram í sáttaviðræðum vegna kaupanna séu ekki fullnægjandi. Á þessu stigi rannsóknarinnar telur eftirlitið enn að viðskiptin raski samkeppni og að þau verði ekki samþykkt að óbreyttu. Nefndi eftirlitið sérstaklega að 17 ára heildsölusamning á milli Mílu og Símans sem fyrirhugað er að taki gildi eftir að viðskiptunum lýkur muni raska samkeppni.

Sjá einnig: SKE hyggst ekki samþykkja söluna á Mílu að óbreyttu

„Á fundinum kom jafnframt fram að Samkeppniseftirlitið hefði fullan hug á áframhaldandi sáttarviðræðum með það að markmiði að finna ásættanlega lausn á þeim samkeppnisvandamálum sem eftirlitið hefði komið auga á. Jafnframt var ítrekað að rof á eignatengslum Símans og Mílu væru jákvæð, en samhliða að það væri verkefni eftirlitsins að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði,“ segir í bréfi eftirlitsins