*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 27. júlí 2021 16:01

Gengi Símans í methæðum

Hlutabréfaverð Símans hefur hækkað um 84% á einu ári og alls um 145% frá því í mars á síðasta ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,7% í 3,4 milljarða veltu í Kauphöllinni í dag. Um þriðjungur veltunnar var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu lítillega og standa nú í 159,5 krónum á hlut.

Gengi Símans náði sínum hæstu hæðum eftir 1,7% hækkun í dag. Hlutabréfaverð fjarskiptafélagsins hefur hækkað um 43% í ár og alls um 84% á einu ári. Markaðsvirði fyrirtækisins er nú um 85 milljarðar króna.

Gengi Icelandair hækkaði um 2,1%, mest allra félaga Kauphallarinnar, og stendur nú í 1,47 krónum. Viðskiptablaðið greindi frá því í gærkvöldi að Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital, sendi viðskiptavinum sínum bréf í kjölfar birtingu á uppgjöri annars ársfjórðungs hjá Icelandair og sagði ólíklegt að miklar breytingar yrðu á verðmatsgengi sínu sem var síðast 2,24 krónur.

Eimskip lækkaði mest í Kauphöllinni eða um 2% í 127 milljóna veltu. Flutningafélagið hefur engu að síður hækkað um 179% á einu ári.