Hlutabréfagengi Solid Clouds lækkaði um 14,9% í dag og er komið niður í 8 krónur úr 12,5 krónum en félagið var skráð á First North vaxtarmarkaðinn á mánudaginn. Alls hefur félagið lækkað um 36% síðan á mánudaginn.

Velta með bréf félagsins nam aðeins fjórum milljónum króna en til þess að eiga möguleika á skattaafslætti þurfa fjárfestar að halda bréfunum í þrjú ár frá útboði.

Næst nýjustu viðbótinni á First North markaðinn vegnaði ekki mikið betur en flugfélagið Play lækkaði um 7% í dag í 74 milljóna króna veltu. Bréf félagsins standa nú í 22,6 krónum sem er aðeins yfir útboðsgenginu en það var á bilinu 18 til 20 krónur.

Play var ekki eina flugfélagið til að taka dýfu á hlutabréfamarkaði í dag en Icelandair lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði kauphallarinnar eða um 3,4% í 96 milljóna króna veltu. Þá lækkaði Úrvalsvísitalan OMXI10 um 0,5%.

Kvika hækkaði mest í dag, um 1,68% í 579 milljóna króna veltu, mestu veltu dagsins. Sjóvá hækkaði næst mest eða um 1,41%. Þar fyrir utan var lítið fjör á aðalmarkaði kauphallarinnar og nam heildarvelta dagsins aðeins um 1,4 milljörðum króna.