Eins og fram kom í morgun hefur fjármálaeftirlitið nú tekið yfir fjárfestingabankann Straum-Burðarás, stjórn bankans verið vikið frá störfum og skilanefnd skipuð.

Straumur-Burðarás var skráður sem sameinað félag í Kauphöllinni í júlí árið 2006 en þar áður hafði Burðarás verið skráður sem félag og var þá á genginu 16,3.

Á myndinni hér til hliðar má sjá gengi hins sameinaða félags frá því í júlí 2006.

Gengi félagsins er nú skráð á 0,02 í Kauphöllinni og hefur lækkað um 98,8% í dag en velta með bréf í félaginu er um 190 þúsund krónur í fimm viðskiptum.

Þá hefur félagið lækkað um 99,8% s.l. 12 mánuði, 98,9% frá áramótum og 99,1% s.l. fjórar vikur samkvæmt Markaðsvaktinni.

Hæst fór gengi félagsins í 23,3 þann 19. júlí árið 2007, daginn eftir að gamla Úrvalsvísitalan (OMXI15) náði hámarki í 9016 stigum. Þá hafði félagið hækkað um 30% á einu ári.

Síðan þá hefur gengi félagsins legið svo að segja jafnt og þétt niður á við, líkt og gengi annarra fjármálafyrirtækja.

Félagið tók þó smá kipp upp á við í október 2007, fór úr genginu 18,4 í lok september og náði hámarki í genginu 21,7 þann 4. október 2007.

Þann 19. október 2007 fór gengið þó aftur niður fyrir 20 og hefur aldrei náð upp fyrir það aftur. Í raun má segja að síðan þá hefur leiðin legið niður á við.

Ári eftir að félagið toppaði, eða þann 19. júlí 2008 var gengi Straums skráð 9,6 í Kauphöllinni og hafði félagið þá lækkað um tæp 59% milli ára.

Þegar neyðarlögin voru sett þann 6. október s.l. var gengi félagsins skráð 7,1 í Kauphöllinni en þann dag voru öll viðskipti með bréf í fjármálafyrirtækjum stöðvuð. Það var svo ekki fyrr en rúmum tveimur mánuðum seinna, eða þann 9. desember sem viðskipti með bréf i Straum og Existu voru heimiluð á ný. Þann dag lækkaði gengi félagsins um 58,9% og var í lok dags 2,9.

Fyrir helgi var gengi félagsins skráð á 1,7 en er nú eftir yfirtökuna í morgun skráð á 0,02.