Gengi bæði Síldarvinnslunnar og Íslandsbanka hefur ekki verið hærra frá skráningu beggja félaga síðasta sumar. Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hækkaði um 2,2% í 55 milljóna króna viðskiptum dagsins og hefur hækkað um 75% frá skráningu. Þá hækkaði hlutabréfaverð Íslandsbanka um 0,8% í 564 milljón króna viðskiptum í dag og hefur hækkað um 40% frá skráningu.

Heildarvelta í Kauphöllinni nam 2,5 milljörðum króna. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,34%. Í lok dags hafði hlutabréfa verð ellefu skráðra félaga hækkað í viðskiptum dagsins en fimm félög lækkuðu.

Þá hækkaði hlutabréfaverð Icelandair mest í dag eð aum 2,6% í 641 milljón króna viðskiptum. Gengið stendur nú í 2 krónum á hlut og hefur hækkað um 11,7% á síðastliðnum mánuði.

Á First North markaði hækkaði hlutabréfaverð Alvotech um 17,3% í 104 milljóna króna viðskiptum. Gengið stendur nú í 1.325 krónum á hlut og hefur hækkað um 35% síðastliðinn mánuð.