Útgerðarfélagið Síldarvinnslan (SVN) var hástökkvarinn á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag. Gengi félagsins hækkaði um 2% í dag og endaði daginn í 101 krónu á hlut, það hæsta frá skráningu félagsins í Kauphöllina í maí síðastliðnum.

Útboðsgengi SVN í hlutafjárútboðinu í maí var 58 krónur fyrir tilboðsbók A (tilboð undir 20 milljónum króna) og 60 krónur fyrir tilboðsbók B (tilboð yfir 20 milljónum). Því hefur hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hækkað um 68%-74% á rúmu hálfu ári frá því að félagið fór á markað. Gengið tók stökk fyrir tæplega tveimur mánuðum síðan þegar ljóst var að gefinn yrði út margfalt meiri loðnukvóti í ár. Sömu sögu er að segja um gengi útgerðarfélagsins Brims sem hefur hækkað um ríflega helming á síðustu tveimur mánuðum.

Flugfélögin Icelandair og Play hækkuðu bæði um meira en 1% í dag, þó í takmarkaðri veltu. Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka, eða 1,2 milljarðar af 3,2 milljarða veltu á aðalmarkaðnum,  sem hækkuðu um 0,7%. Gengi Arion stendur nú í 192,3 krónum á hlut og hefur hækkað um 105% í ár.