Hlutabréf rafbílaframleiðandans Tesla hafa fallið um meira en 11% frá opnun markaða í dag og markaðsvirði félagsins hefur lækkað um meira en hundrað milljarða dala. Samkvæmt rauntímalista Forbes hafa auðæfi Musk lækkað um 25 milljarða dala í dag eða um 9,6%. Hlutabréfaverð Tesla hefur nú fallið um 22% frá því að Musk varð stærsti hluthafi Twitter fyrir þremur vikum.

Í umfjöllun Financial Times um málið segir að möguleikinn að Elon Musk, forstjóri Tesla, þurfi að selja hluta af bréfum sínum í félaginu til að fjármagna kaup á Twitter hafi sett þrýsting á gengi Tesla. Fjármögnun yfirtökunnar á Twitter felur í sér 25,5 milljarða lánsfjármögnun, þar af er 12,5 milljarða lán með veði í hlutabréfum hans í Tesla, en Musk mun sjálfur leggja fram 21 milljarða dala.

Mikil velta hefur verið með hlutabréf Tesla í dag eða alls um 30 milljónir að nafnverði að andvirði 28 milljarða dala. Það er um þrefalt meiri velta en með hlutabréf Apple í dag.

Musk og ráðgjafar hans hjá Morgan Stanley hafa kannað hvort aðrir fjárfestar hafi áhuga á að kaupa hlut í Twitter á móti honum til að lækka byrði auðkýfingsins við kaupin.