Gengi hlutabréfa Twitter féll um tæp 11% á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag. Lægst fór gengið niður í 34,55 dali á hlut og hafði það þá aldrei verið lægra. Twitter var stofnað árið 2006 og voru hlutabréf fyrirtækisins skráð á markað í september í fyrra.

AP-fréttastofan segir að ástæðan fyrir gengislækkuninni sé sú að hömlur sem settar voru á sölu hlutabréfa í eigu starfsfólks og frumfjárfesta var að renna út og gátu þeir sem vildu þá selt hlutabréf sín. Fréttastofan segir að forstjórinn Dick Costolo, Jack Dorsey og Evan Williams sem stofnuðu Twitter, hafi ekki áform um að selja hluti sína.