Hlutabréf Unity hafa fallið um meira en 20% í viðskiptum fyrir opnun markaða en hugbúnaðarfyrirtækið, sem Davíð Helgason á 3,1% hlut í, birti uppgjör eftir lokun markaða í gær. Gengi Unity stendur í 37 dölum á hlut þegar fréttin er skrifuð og hefur nú lækkað um meira en 70% í ár.

Tekjur Unity á fyrsta ársfjórðungi námu 320 milljónum dala eða um 42 milljörðum króna og jukust 36% frá sama tímabili í fyrra. Fyrirtækið tapaði 177,6 milljónum dala á fjórðungnum samanborið við 107,5 milljónir dala á fyrstu fjórðungi 2021. Rekstrarniðurstöður Unity á fyrsta ársfjórðungi voru í takt við væntingar markaðsaðila, samkvæmt frétt Marketwatch . Hins vegar var rekstrarspá fyrirtækisins út árið nokkuð undir spám.

Unity gerir ráð fyrir að tekjur á öðrum ársfjórðungi verði á bilinu 290-295 milljónir dala en greinendur í könnun FactSet höfðu að meðaltali spáð að tekjur félagsins yrðu um 360 milljónir dala á öðrum fjórðungi. Þá áætlar hugbúnaðarfyrirtækið að tekjur á yfirstandandi rekstrarári verði á bilinu 1,35-1,43 milljarðar dala samanborið við væntingar greiningaraðila um 1,5 milljarða dala.

Davíð Helgason er einn þriggja stofnenda Unity og á 3,1% hlut í félaginu sem er um 339 milljónir dala að markaðsvirði eða sem nemur 44,6 milljörðum króna.

Unity var skráð í kauphöll Nasdaq í New York í september 2020 og var útboðsgengi í frumútboði hugbúnaðarfyrirtækisins 52 dalir. Gengi Unity fór hæst í 201 Bandaríkjadal á hlut í nóvember síðastliðnum en síðan þá hafa hlutabréf félagsins fallið um meira en 80% í verði.