Gengi hlutabréfa HB Granda lækkaði um 1,5% í 40 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Fram kemur í hálfsársuppgjöri fyrirtækisins í dag að hagnaður fyrirtækisins dróst saman um rúm 34% á milli ára.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa VÍS um 0,97% í Kauphöllinni í dag. Þetta var næstmesta gengislækkunin á markaðnum í dag. Fyrirtækið birti uppgjör sitt í gær en þar kemur fram að hagnaður VÍS dróst mikið saman á fyrri hluta árs. Hann nam 451 milljón króna en var 1.094 milljónir á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.

Þá lækkaði gengi bréfa Marel um 0,49%, Sjóvár um 0,42% og TM sömuleiðis. Gengi hlutabréfa Icelandair Group lækkaði hins vegar um 0,29%.

Á hinn bóginn hækkaði gengi bréfa N1 um 0,9%, Haga um 0,45% og Regins um 0,16%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,28% og endað ihún í 1.132 stigum. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam rétt tæpum 800 milljónum króna. Mest var veltan með hlutabréf Haga eða upp á 297 milljónir króna.