Gengi hlutabréfa Vodafone féll um 2,46% í Kauphöllinni í dag. Gengi bréfanna endaði í 27,75 krónum í lok dags og er það 11,9% undir útboðsgengi þeirra í desember. Gengi hlutabréfa Vodafone hefur aldrei verið lægra. Ekki er mikil velta á bak við gengisþróunina í dag eða rúmar 34 milljónir króna.

Gengi hlutabréfa Vodafone fór hæst í 34,85 krónur á hlut seint í mars síðastliðnum. Eftir birtingu uppgjörs félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung Vodafone á miðvikudag fyrir viku, sem olli vonbrigðum, tók gengi hlutabréfanna að falla hratt og er það nú sem fyrr segir komið í 27,75 krónur á hlut.

Við þetta má bæta að virðismatsgengi hlutabréfa Vodafone er 24,2 krónur á hlut í nýlegu verðmati IFS Greiningar , sem mælti í síðustu viku með sölu hltuabréfanna. Markgengi eftir 9 til 12 mánuði er 29 krónur á hlut að mati IFS.