Gengi bréfa norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian Air Shuttle féll í fyrstu viðskiptum morgunsins í norsku kauphöllinni um nærri 60% að því er Túristi greindi fyrst frá.

Var verðmæti bréfanna um 8,27 norskar krónur við opnun en fór lægst niður í 3,25 krónur, en þegar þetta er skrifað hefur verðmæti bréfanna rétt sig nokkuð úr kútnum á ný og er það komið í 5,4 krónur. Nemur lækkunin í dag því rétt ríflega þriðjungi eða 34,46%.

Hrun bréfanna í dag var fyrirséð því eftir lokun markaða fyrir páskafríið lögðu stjórnendur Norwegian fram áætlun um björgun félagsins frá gjaldþroti sem fólst að stærstum hluta til í því að lánveitendur myndu breyta kröfum sínum í hlutafé eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu . En þar sem skuldirnar eru það miklar munu núverandi hluthafar nánast þurrkast út ef lánveitendur fallast á aðgerðirnar.

Stofnandinn, og fyrrum forstjóri félagsins, Bjørn Kjos, slapp þó fyrir horn þar sem eignarhaldsfélag hans og Bjørn Kise fyrrum stjórnarformanns hafa selt nánast alla sína hluti síðustu vikur. Fór eignarhluturinn úr því að vera um 17% fyrir ári síðan niður í 0,15% nú.