Uppgjör Sýnar og bandaríska fjárfestingafélagsins Digital Bridge Group, áður Colony Capital í tengslum við sölu á óvirkum farsímainnviðum félagsins fór fram í dag samkvæmt tilkynningu frá Sýn. Endanlegt kaupverð, sem sjóðir tengdir DigitalBridge Group hafa  innt af hendi, nemur 6,94 milljörðum króna og lækkar lítillega þar sem sendastöðum fækkaði einnig lítillega.

Söluhagnaður Sýnar verður tæplega 6,5 ma.kr. „Reikningshaldsleg meðferð söluhagnaðar liggur ekki endanlega fyrir, þ.e. hversu stór hluti af söluhagnaðinum verður færður í gegnum rekstur á söludegi," segir í tilkynningunni.

Digital Bridge kaupir einnig tæplega 170 sendastaði af Nova en talið er að heildarkaupverð nemur um 13 milljörðum króna að meðtöldum hluta Nova í viðskiptunum. Vinna er á lokametrunum við 8-9 milljarða lánsfjármögnun Arion banka og nýs innviðasjóðar Kviku, sem m.a. er fjármagnaður af lífeyrissjóðum og fleiri stofanafjárfestum vegna kaupanna líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku.

Samhliða viðskiptunum er gerður langtímasamningur, sem tryggja mun áframhaldandi aðgang seljenda að hinum óvirku farsímainnviðum en allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar og Nova.