*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Innlent 15. september 2020 08:57

Gengið frá skjölum vegna lánalínu

Um er að ræða 120 milljón dollara lánalínu sem ábyrgð er að 90% af ríkinu. Línan fellur niður heppnist hlutafjárútboð ekki.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Gengið hefur verið frá nauðsynlegum pappírum varðandi ríkisábyrgt þrautavaralán frá ríkisbönkunum tveimur, Landsbankanum og Íslandsbanka, til handa Icelandair. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair til Kauphallarinnar.

Um er að ræða 120 milljón dollara lánalínu sem ábyrgð er að 90% af ríkinu. Lánalínan er bundin þeim fyrirvara að hún fellur niður takist félaginu ekki að safna nýju hlutafé. Unnt er að draga á línuna næstu tvö ár og er hún hugsuð til þrautavara. Vonir félagsins standa til að ekki þurfi að nýta hana en verði ástand í flugheimum áfram óbreytt er talið líklegt að nýta þurfi línuna kringum næsta sumar.

Hlutafjárútboð Icelandair hefst á morgun og stendur fram á fimmtudag. Áætlað er að safna 20 milljörðum nýrra hluta, á genginu einum, en verði umframeftirspurn er heimilt að hækka það upp í 23 milljarða. Landsbankinn og Íslandsbanki sölutryggja þrjá milljarða hvor banki nemi samanlögð tilboð milli fjórtán og tuttugu milljörðum.