Gengið hefur verið frá nauðsynlegum pappírum varðandi ríkisábyrgt þrautavaralán frá ríkisbönkunum tveimur, Landsbankanum og Íslandsbanka, til handa Icelandair. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair til Kauphallarinnar.

Um er að ræða 120 milljón dollara lánalínu sem ábyrgð er að 90% af ríkinu. Lánalínan er bundin þeim fyrirvara að hún fellur niður takist félaginu ekki að safna nýju hlutafé. Unnt er að draga á línuna næstu tvö ár og er hún hugsuð til þrautavara. Vonir félagsins standa til að ekki þurfi að nýta hana en verði ástand í flugheimum áfram óbreytt er talið líklegt að nýta þurfi línuna kringum næsta sumar.

Hlutafjárútboð Icelandair hefst á morgun og stendur fram á fimmtudag. Áætlað er að safna 20 milljörðum nýrra hluta, á genginu einum, en verði umframeftirspurn er heimilt að hækka það upp í 23 milljarða. Landsbankinn og Íslandsbanki sölutryggja þrjá milljarða hvor banki nemi samanlögð tilboð milli fjórtán og tuttugu milljörðum.