Gengi fasteignafélaganna þriggja hefur hækkað mikið undanfarna mánuði líkt og önnur félög sem eru skráð í kauphöllinni. Fyrstu átta til níu mánuði ársins lækkuðu bréfin mikið en í lok sumars og haust varð viðsnúningur.

Frá því í lok ágúst hefur gengi hlutabréfa í Regin hækkað um 64%. Nú stendur gengið í 22,3, sem er svipað og fyrir 12 mánuðum þegar gengið var 23,4. Gengi bréfa Reita hefur hækkað um 72% síðan í lok ágúst. Gengið stendur nú í 71,7 en fyrir ári stóð það í 78,2. Sömu sögu er að segja af Eik. Gengi bréfa í félaginu hefur hækkað um 65% síðan í ágúst og í fyrradag stóð það í 9,60, sem er örlítið hærra en fyrir ári þegar gengið var 9,18.

Í dag metur markaðurinn Reiti og Eik þannig að bókfært verð eigna þeirra standi undir hlutabréfagenginu, þ.e. V/I hlutfallið er hærra en 1. Hjá Reitum er það 1,21 en hjá Eik 1,02. Hlutfallið hjá Reginn er 0,90.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .