Lækkanir á gengi hlutabréfa í Kauphöll Íslands hafa að hluta til gengið til baka eftir að hafa verið í nær frjálsu falli frá síðustu viku febrúar fram í miðjan mars. Síðastliðinn mánudag hafði úrvalsvísitala Kauphallarinnar, OMXI10 lækkað um 14% frá 21. febrúar en þegar vísitalan náði lággildi sínu þann 23. mars nam lækkunin 27,1%. Þann dag stóð heildarmarkaðsvirði félaganna 20 á aðalmarkaði Kauphallarinnar í 941,6 milljörðum króna og hafði lækkað um 300 milljarða króna eða 24,1% á um mánuði. Á mánudag stóð samanlagt markaðsvirði félaganna tuttugu í 1.083,3 milljörðum og hafði á tveimur mánuðum lækkað um 158,3 milljarða eða 12,8%.

Þess ber að geta að leiðrétt fyrir arðgreiðslum nemur lækkun úrvalsvísitölunnar síðustu tvo mánuði 11% en þar munar mestu um arðgreiðslu Marel, sem myndar stóran hluta vísitölunnar, en á sama tíma hafa þónokkur fyrirtæki frestað arðgreiðslum vegna ástandsins. Þá nemur lækkun aðalvísitölu Kauphallarinnar 12,7% yfir sama tímabil en sú vísitala inniheldur öll félögin á markaðnum á meðan úrvalsvístalan inniheldur einungis 10 þeirra. Lækkun arðsleiðréttrar aðalvísitölu nam 10,5% á tímabilinu.

Veðköll og innlausnir höfðu áhrif

Skarpar lækkanir á hlutabréfamörkuðum víðsvegar um heiminn hófust mánudaginn 24. febrúar en þann dag bárust m.a. fréttir af því að nokkur tilfelli COVID-19 hefðu greinst á Ítalíu en fram að þessum degi virtist sem hlutabréfafjárfestar um allan heim hafi ekki gert sér í hugarlund hvaða áhrif veiran myndi raunverulega hafa á næstu vikum og mánuðum.

Á þremur vikum til 16. mars hafði úrvalsvísitalan fallið um 24,8% en fjórum dögum áður hafði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sett á ferðabann til landsins og þann dag féll úrvalsvísitalan um 8,4%. 23. mars náði markaðurinn svo áðurnefndum botni þegar lækkun nam 27,1% frá 21. febrúar. Fyrir utan þá staðreynd að horfur í efnahagslífinu höfðu á nokkrum vikum versnað til muna skýrðust skarpar lækkanir einnig af því að skuldsettir einkafjárfestar fengu veðköll (e. margin call) vegna framvirkra samninga og í þeim tilfellum sem fjárfestar gátu eða vildu ekki reiða fram frekari tryggingar vegna stöðutöku seldu bankarnir undirliggjandi bréf út á markaðinn sem skapaði enn frekari lækkunarþrýsting. Þá höfðu innlausnir úr hlutabréfasjóðum og aukið bil milli kaup- og sölutilboða einnig viðbótaráhrif samkvæmt viðmælendum blaðsins á markaði.

Á mánuðinum til 23. mars til 20. apríl, lækkuðu öll bréf á markaðnum um meira en 10% fyrir utan bréf Brims og Heimavalla. Mest lækkun varð á bréfum Icelandair Group eða 63,6% auk þess sem bréf Arion banka lækkuðu um 41%, bréf Sýnar um 36% og bréf Kviku banka um 31%. Þá lækkuðu bréf tryggingafélaganna VÍS og Sjóvá um 33 og 31% á meðan lækkun á bréfum TM var minni eða 22%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .