Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur hækkað um 0,29% í Kauphöllinni í dag. Velta með bréfin nemur 290 milljónum króna og er þetta mesta veltan með hlutabréf á markaðnum í dag. Gengið hækkaði um rúm 0,5% fyrir hádegi. Í morgun sendi flugrekstrarfélagið frá sér uppfærða afkomuspá . Þar segir að gert sé ráð fyrir því að rekstrarhagnaður (EBITDA) verði sjö milljónum dala lægri en spá gerði áður ráð fyrir. Samkvæmt uppfærðri spá er gert ráð fyrir að EBITDA ársins verði um 138 – 143 milljónir dala eða á bilinu tæpir 15,7- rúmir 16,2 milljarðar á árinu í stað 145 – 150 milljóna dala. Þarna munar sjö milljónum dala eða tæpum 796 milljónum íslenskra króna.

Þetta skýrist m.a. af vinnudeilum sem hafa haft neikvæð áhrif á reksturinn, þróun gengis evru gagnvart bandaríkjadal og þróun eldsneytisverðs.