Gengi hlutabréfa féll á mörkuðum í Asíu í nótt. Þar á meðal féll Nikkei-vísitalan í kauphöllinni í Japan um 5,15%. Áhyggjur fjárfesta af því að bandaríski seðlabankinn ætli að draga úr aðgerðum sínum sem ætlað er að örva efnahagslífið skýra titringinn að mestu, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Gengisfallið var talsvert meira en á bandarískum mörkuðum í gær þegar helstu hlutabréfavísitölur þar í landi lækkuðu af sömu ástæðu.

Erlendir fjölmiðlar benda á að aðgerðir japanska seðlabankans sem hafi vakið heimsathygli hafi þrýst Nikkei-vísitölunni upp um 30% frá áramótum.