Gengishagnaður Fons á hlutabréfum í FL Group, sem félagið fékk sem greiðslu fyrir Sterling, nemur alls um 2.250 milljónum króna. Fons hefur fengið bréfin afhent í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að FL Group beri ekki að tilkynna kaupin á Sterling á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hluti af kaupverði Sterling var í hlutabréfum í FL Group alls að nafnverði tæpar 296 milljónir hlutir. Miðað var við gengið 13,60 sem var viðskiptagengi á bréfum í útboði FL Group í nóvember síðastliðnum. Markaðsverðmæti bréfanna miðað við það gengi er rúmir fjórir milljarðar króna. Gengi hlutabréfa FL Group hefur hins vegar hækkað verulega að undanförnu og var síðasta viðskiptagengi um 21,20. Þetta þýðir að verðmæti bréfanna sem Fons hefur fengið afhent er tæpir 6,3 milljarðar króna.