Markaðsverðmæti tæknifyrirtækisins XG Technology, sem er að hluta til í eigu íslenskra fjárfesta, hefur nánast tvöfaldast á síðustu dögum og er nú rúmlega einn milljarður Bandaríkjadala (70 milljarðar íslenskra króna), samkvæmt upplýsingum frá kauphöllinni í London.

Félagið var skráð á AIM-markaðinn í Bretlandi í nóvember og var markaðsverðmæti þess við skráningu 544 milljónir dala, eða rúmlega 38 milljarðar króna. Á þriðjudaginn síðastliðinn snarhækkaði gengi bréfa XG Technology, eða um 49% á einum degi, og fór markaðsverðmætið í kringum einn milljarð dala, sem samsvarar rúmlega 70 milljörðum króna.

Á miðvikudaginn hélt gengið áfram norður og hækkaði um 16% í 13,05 dali hluturinn. Síðdegis í gær hafði gengi bréfanna hækkað um 11%. Skráningargengið var rúmlega fjórir dalir en var 14,5 dalir við lokun markaðar í London í gær.

Ekki er vitað hvað veldur hækkuninni, en miðlarar í Bretlandi telja líklegt að frétta sé að vænta af félaginu og að slíkur orðrómur sé að ýta upp genginu. Hins vegar benda miðlarar á að ekki sé um veruleg viðskipti að ræða, en flestir stærstu hluthafarnir eru læstir inni í félaginu og hafa ekki leyfi til þess að selja stöður sínar fyrr en eftir tólf mánuði frá skráningu, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins.

Íslenska félagið Stormur, sem skráð er í Svíþjóð, á um 20% hlut í XG Technology. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru íslensku fjárfestarnir sem standa að Stormi, Aðalsteinn Karlsson, Pálmi Sigmarsson, Gunnar Jóhann Birgisson, Þórarinn Kristinsson, Guðmundur Birgisson, Sigurður Hjálmarsson, og Eggert og Gunnar Gíslasynir.

Upphafleg fjárfesting Storms var í kringum fimm milljónir dala, en virði hlutarins jókst í kringum 120 milljónir dala við skráninguna á síðasta ári. Nú er hluturinn metinn á um 210 milljónir dala. Á nokkrum dögum nemur gengishagnaður Storms því um sex milljörðum króna. XG Technology sérhæfir sig í fjarskiptatækni og er staðsett í Flórídafylki í Bandaríkjunum.