Hagnaður Byggðastofnunar nam rúmlega 194 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2006, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands, samanborið við 40 milljóna króna tap á sama tíma í fyrra.

Gengishagnaður var verulegur á tímabilinu og nam 490 milljónum króna, en hreinar vaxtatekjur voru neikvæðar um 49 milljónir samanborið við jákvæðar hreinar vaxtatekjur að virði 184 milljónir fyrstu sex mánuði ársins 2005.

Rekstrargjöld, að meðtölum framlögum í afskriftarreikning útlána og niðurfærsla hlutafjár, námu 456 milljónum á tímabilinu. Framlög í afskriftarreikning útlána og niðurfært hlutafé nam 247 milljónum.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að hlutverk Byggðastofnunar sé meðal annars að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni, en stofnunin skipuleggur og fjármagnar verkefni og veitir lán til að stuðla nýsköpun og efla atvinnu.

Útlán Byggðastofnunnar námu 9,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins jukust um 611 milljónir frá því í desember í fyrra. Skuldir Byggðastofnunar námu 11,6 milljörðum og jukust um 906 milljónir á fyrri helmingi ársins.