Fasteignafélagið Auðlind ehf. átti fyrr á þessari öld eignir upp á milljarða, en meðal þeirra voru fasteignir í Álfabakka, Borgartúni, Faxafeni, Kringlunni og Bergstaðastræti. Félagið var stofnað um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar og fjármagnaði fasteignakaupin með gjaldeyrislánum, sem fór ekki vel í hruninu eins og gefur að skilja.

Eftir málaferli gegn lánveitandanum Lýsingu, vegna deilna um lögmæti gengislánsins, sem töpuðust, var félagið úrskurðað gjaldþrota árið 2017. Skiptum þrotabúsins – lýstar kröfur námu 1,6 milljörðum – lauk nýlega, en ekki kom fram hvort eitthvað fékkst upp í þær kröfur, og ekki náðist í skiptastjóra við vinnslu fréttarinnar. Miðað við efnahagsreikning félagsins árin áður verður þó að telja ólíklegt að teljandi upphæðir hafi verið til skiptanna.

Skotskóli, verðbréf og fasteignir
Ellert Aðalsteinsson, fjárfestir og margfaldur Íslandsmeistari í dúfuskotfimi, stofnaði Auðlind ehf. árið 2004. Tilgangur þess var sagður kaup og sala verðbréfa, umsýsla með fasteignir, og rekstur skotskóla, en skotskólinn virðist aldrei hafa verið stór hluti rekstrarins, að minnsta kosti fjárhagslega; bróðurpartur tekna árið 2004 voru leigutekjur, og árið 2005 var það hlutdeild í afkomu dótturfélags.

Í efnahagsreikningi félagsins árið 2005 er þó að finna byssu sem metin er á 396 þúsund krónur. Félagið varð hins vegar ekki langlíft, og var afskráð árið 2006. Þá var félagið PWJ Eignir ehf. sem var í eigu Ellerts og viðskiptafélaga hans Péturs Jóhannssonar stofnað árið 2004, en engin starfsemi var hjá félaginu fyrr en árið 2006, þegar það tók upp nafn hins nýafskráða Auðlindar ehf. og eignaðist það ár fasteignir upp á 320 milljónir króna.

Árið eftir var nafninu breytt í Gamla – Auðlind ehf. og eignasafnið stækkaði í tæpar 840 milljónir, en árið 2008 sameinaðist það hinu fyrstnefnda Auðlind, sem stofnað hafði verið árið 2005 en hafði þangað til borið nafnið EB eignir ehf.

Það tók upp Auðlindarnafnið árið 2007 og fékk tvo milljarða að láni til að fjármagna fasteignakaup. Í lok þess árs námu eignir félagsins tæpum 2,5 milljörðum og skuldir rúmum 2, og eigið fé var því tæpur hálfur milljarður.

Þriðji stærsti skuldari Byrs
Milli áranna 2007 og 2008 hækkuðu eignir svo í 3,4 milljarða, en skuldirnar – sem skiptust hér um bil til helminga milli japanskra jena og svissneskra franka – hátt í þrefölduðust í 5,6 milljarða. Eftir hrun krónunnar og stökkbreytingu gengislánanna var Ellert og félög tengd honum orðinn þriðji stærsti skuldari Byrs í nóvember 2008 með alls 6,1 milljarðs króna skuldir, sem námu 14% af eiginfjárgrunni sparisjóðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .