Dómur Hæstaréttar frá í gær þess efnis að samningsvextir gengislána skuli standa og óheimilt sé að reikna lánið afturvirkt breytir engu um fjárhagsstöðu Arion banka. Í málinu tapaði bankinn gegn Borgarbyggð vegna gengisláns sveitarfélagsins. Í dómnum kemur fram að Borgarbyggð skuldi bankanum 128 milljonir króna. Áður en málið hófst var talið að lánið stæði í 359 milljónum. Ef miðað var við afturvirka útreikninga samkvæmt svokölluðum Árna Páls-lögum stóð það hins vegar í 213 milljónum króna.

Skarphéðinn Pétursson, lögmaður Borgarbyggðar í málinu, sagði dóminn geta þýtt að í tilfelli styttri lána hafi margir ofgreitt erlend lán sín og fjölmargir átt rétt á endurgreiðslum.

Í tilkynningu frá Arion banka segir:

„Í þessu tiltekna máli endurreiknaði Arion banki gengistryggt lán sveitarfélags í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010. Þau lög voru sett af Alþingi í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 16. september 2010 um vexti sem gengistryggð lán ættu að bera. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í gær standast þau ákvæði laganna, sem lúta að ákvörðun vaxta aftur í tímann, ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Dómurinn skýrir einhver þeirra álitaefna sem komu upp í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. Mörg álitaefni eru þó enn til staðar. Um leið og fyrir liggur hvaða lán falla undir fordæmi dóma Hæstaréttar um fullnaðarkvittanir og hvernig skuli standa að endurútreikningi, þannig að hann standist lög og stjórnarskrá, verður hafist handa við endurútreikning. Arion banki vinnur að því að svo verði sem fyrst, en líklegt er að bera þurfi nokkur álitamál undir dómstóla áður en endurútreikningur getur hafist.

Varðandi áhrif dómsins frá því í gær á lánasafn Arion banka og almennt fjárhagsstöðu bankans er rétt að taka fram að í ársreikningi Arion banka fyrir árið 2011 var að fullu tekið tillit til áhrifa dóms Hæstaréttar frá 15.febrúar sl. á lánasafn bankans með 13,8 milljarða króna niðurfærslu lánasafnsins. Dómur Hæstaréttar í gær breytir því engu þar um. Ekki mun þó liggja fyrir hver endanleg niðurfærsla lána verður í kjölfar þessara dóma, en það mun ekki liggja fyrir fyrr en að loknum endurútreikningi.“