Hagnaður ársins eftir skatta af reglulegri starfsemi var 13,9 milljarðar, samanborið við 17,8 milljarða árið 2010. Hagnaður ársins eftir skatta að teknu tilliti til einskiptisliða, s.s. væntra áhrifa gengislánadómsins og niðurfærslu á viðskiptavild, nam 1,9 milljörðum króna, samanborið við 29,4 milljarða 2010.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Birna Einarsdóttir, bankastjóri, segir þar að hagnaður af reglulegum rekstri á árinu 2011 hafi verið viðunandi. Ljóst sé að nýfallinn dómur Hæstaréttar hafi veruleg áhrif á afkomu bankans. Afar mikilvægt sé að þeirri óvissu sem enn ríkir um gengislánamálin verði eytt sem allra fyrst. Kostnaður bankans vegna dómsins er metinn á 12,1 milljarð króna. Tekið er fram að enn ríki óvissa um fordæmisgildi og aðferð endurútreiknings.

Virðisrýrnun á viðskiptavild sem rekja má til yfirtöku bankans á Byr er um 17,9 milljarðar, og voru bókfærðir á fjórða ársfjórðungi. Gjaldfærsla vegna endurmats lánasafnsins nam 1,3 milljörðum króna, samanborið við 14,5 milljarða tekjufærslu á sama tímabili árið áður.

Arðsemi eiginfjár af reglulegri starfsmei eftir skatta var 11,0% á ársgrundvelli. Sé tekið tillit til einskiptikostnaðar var arðsemi eiginfjár 1,5%.

Heildareignir námu 795.9 milljörðum króna við árslok, samanborið við 683,2 milljarða árið 2010. Hækkunin skýrist af sameiningu Íslandsbanka og Byrs. Heildarinnlán námu 525,8 milljörðum króna við árslok, samanborið við 423,4 milljarða árið 2010.

Eigið fé nam 123,7 milljörðum við árslok og jókst um 2% á tímabilinu. Eiginfjárhlutfall var 22,6%, sem er töluvert umfram það 16% lágmark sem FME setur bankanum.