Eignir Lýsingar rýrnuðu um 20,4 milljarða króna þegar Hæstiréttur dæmdi að veiting gengistryggðra lána í íslenskum krónum væri ólöglegur gjörningur á síðasta ári. Í lok árs 2009 var eigið fé Lýsingar 8,5 milljarðar króna. Því er ljóst að það varð neikvætt um tæpa 12 milljarða króna eftir dóm Hæstaréttar og Lýsing því tæknilega gjaldþrota. Þetta kemur fram í ársreikningi Existu, móðurfélags Lýsingar, sem skilað var inn til ársreikningaskráar 21. desember síðastliðinn. Í ársreikningnum segir einnig að framtíð Lýsingar sé „verulega óviss“ um þessar mundir.

Upp á Deutsche Bank komið

Miðað við stöðu Lýsingar í lok árs 2009 er eiginfjárhlutfall fyrirtækisins fjarri því lágmarki sem fjármálafyrirtæki þarf að hafa til þess að mega starfa samkvæmt lögum. Fjármálaeftirlitið (FME) hefur hins vegar veitt Lýsingu frest til þess að uppfylla lögboðnar kröfur um lágmarkseiginfjárhlutfall, sem er 8%. Á grundvelli þess frests hefur fyrirtækið haldið áfram að starfa. Langstærsti kröfuhafi Lýsingar er þýski bankinn Deutsche Bank. Til að gera Lýsingu kleift að starfa áfram þarf hann líklegast að breyta hluta af skuldunum í hlutafé í fyrirtækinu.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .