Nú fer fram á Alþingi 1. umræða um gengislánafrumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra. Í framsögu sagði Árni Páll Árnason að erfitt sé að rökstyðja það að fólk í sambærilegri stöðu og tók sama eða sambærilegt gengistryggt lán sé í ólíkri vegna mismunandi orðalags samninga.

Í máli Árna Páls á Alþingi í dag kom fram að alls sé um að ræða 37 þúsund heimili á landinu, eða um þriðjung heimila. Skuldir heimila munu lækka um 50 milljarða króna við samþykkt frumvarpsins.

Eins og áður hefur komið fram vill ráðherra með frumvarpinu eyða öllum vafa um að orðalag samninga geti ráðið því hvort gengisbundið lán sé ólöglegt eða ekki.

Frumvarpið veitir öllum einstaklingum sem tóku gengistryggð íbúðalán og bílalán sama rétt og fólst í dómi Hæstaréttar í september sl. Þar var kveðið á um að gengisbundin lán skuli bera vexti Seðlabankans. Áður hafði Hæstaréttur komist að þeirri niðurstöðu að gengistryggð lán séu ólögleg.