„Þetta er hluti af þessari vitleysisstöðu sem bankarnir hafa búið til hér," segir Ragnar H. Hall, lögfræðingur hjónanna Sigurðar Hreins Sigurðssonar og Mariu Elviru Mendez Pinedo sem fara enn á ný gegn slitastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans. Mál þeirra verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag.

Þau unnu svokallaðan gengislánadóm gegn þrotabúi bankans í Hæstarétti í febrúar þegar dómurinn kvað úr um að vaxtaútreikningur sem stuðst var við væri ekki réttur og að lög sem Alþingi setti um gengislán í árslok 2010 brytu gegn stjórnarskrá. Hæstiréttur hefur dæmt í tveimur málum hjónanna og slitastjórn Frjálsa fjárfestingabankans.

Þau Sigurður og Maria tóku fimm gengistryggð lán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum á árunum 2004 til 2006. Þau leitast nú við að fá upplýsingar um stöðu lána sinna hjá þrotabúi Frjálsa fjárfestingarbankans. Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar hefur slitastjórnin neitað að gefa það upp fyrr en búið verður að dæma í málum sem eiga að skera úr um það hvernig eigi að endurreikna lánin.

„Þótt ég telji augljóst hvernig eigi að gera þetta, þá hafa þeir aðra skoðun á því. Þeir telja það bara alls ekki augljóst,“ segir Ragnar.