Rekstrartap Isavia ohf. fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3,2 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs. Er það um 131 milljónum verri niðurstaða en í fyrra. Endanleg afkoma var 3,5 milljarða tap samanborið við 7,6 milljarða tap fyrir ári. Skárri afkomu má rekja til jákvæðra gengisáhrifa vegna langtímalána í erlendum myntum. EBIT félagsins var neikvæð um 5,1 milljarð.

Auðvelt er að merkja áhrif faraldursins á rekstur samstæðunnar en rekstrartekjur drógust saman um rúmlega 2,3 milljarða, námu tæplega 6,3 milljörðum, frá sama tímabili í fyrra. Sé horft tvö ár aftur í tímann erum 65% samdrátt að ræða innan samstæðunnar. Samdráttur í farþegafjölda miðað við 2019 er 93% en 76% borið saman við sama tíma í fyrra.

„Enn gætir verulegra áhrifa kórónuveirunnar á rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu hjá okkur,“ er haft eftir Sveinbirni Indriðasyni, forstjóra Isavia, í tilkynningu. „Endurheimtin á Keflavíkurflugvelli hefur farið hægar af stað en við áttum von á. Ljóst er að fjöldi farþega á síðustu mánuðum þessa árs verður minni en við vonuðumst eftir og má rekja það beint til harðra takmarkana sóttvarnaryfirvalda á landamærum Íslands.

Flugfélög hafa dregið úr framboði sínu og þeim flugfélögum, sem við töldum að myndu sinna flugi til Íslands yfir vetrarmánuðina, hefur fækkað og gæti þeim auðveldlega fækkað enn frekar. Þessi staða er mikið áhyggjuefni, og í raun alvarleg, þar sem við ættum að vera að vinna með endurheimtinni en ekki gegn henni.“

Eignir félagsins voru metnar á tæplega 81 milljarða í lok júní en þar af eru veltufjármunir 18,7 milljarðar. Eigið fé nemur 26,7 milljörðum en á frá sama tíma á síðasta ári hefur hlutafé félagsins verið aukið um 3 milljarða króna. Langtímaskuldir nema 42,8 milljörðum og skammtímaskuldir 11,4 milljörðum.