Hagnaður af rekstri Eyrir Invest nam á fyrri hluta ársins 11,5 milljónum evra fyrir skatta og fjármagnliði, samanborið við tap upp á tæpar 8,5 milljónir evra á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu. Sé litið til afkomu eftir skatt nemur hann sem áður 11,5 milljónum evra, samanborið við rúmlega 1,7 milljónir evra á sama tíma í fyrra þannig að hagnaðurinn á milli ára nemur tæplega 560%.

Stærsti þátturinn milli ára er gengismunur en samkvæmt uppgjöri á fyrri helmingi þessa árs nemur gengishagnaður félagsins 910 þúsund evra, samanborið við tap upp á tæpar 19 milljónir evra á sama tíma í fyrra.

Eigið fé félagsins nam í lok júní 195 milljónum evra, samanborið við 184 milljónir evra á sama tíma í fyrra en eiginfjárhlutfallið er þá 44% (var 40,8%) í fyrra.

Vaxtatekjur aukast, rekstarkostnaður eykst

Sé uppgjörið skoðað nánar kemur í ljóst að verulega hefur dregið úr afkomu á verðbréfum og verðbréfaafleiðum. Þar hagnaðist félagið um tæpar 5 milljónir evra á fyrri helmingi ársins, samanborið við 16,8 milljónir á sama tíma í fyrra. Munurinn er því neikvæður um 70%.

Aftur á móti aukast vaxtatekjur félagsins um rúm 90% eða tæpar 4,3 milljónir evra, voru tæpar 9,1 milljón evra á fyrri helmingi þessa árs en voru tæpar 4,8 milljónir á sama tíma í fyrra.

Rekstargjöld Eyrir Invest jókst hins vegar um 35% milli ára, var á fyrri helmingi þessa árs 920 þúsund evrur en var á sama tíma í fyrra rúmar 680 þúsund evrur.

Laust fé og aðrar bankainnstæður námu í lok tímabilsins 29 milljónum evra, samanborið við tæpa 41 milljón á sama tíma í fyrra.

Þá kemur loks fram í uppgjörinu að skuldir félagsins hafa lækkað um 7%, voru í lok tímabilsins tæpar 249 milljónir evra en voru á sama tíma í fyrra rúmar 267 milljónir evra.

Félög í eigu Eyrir í lykilaðstöðu til að skapa hlutabréfaverðmæti, segir forstjórinn

„Við erum sátt við að skila hagnaði nú.  Afkoma okkar endurspeglar fyrst og fremst afkomu félaga okkar að frádregnum fjármagnskostnaði,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyrir Invest í uppgjörstilkynningunni.

„Marel, Össur og Stork hafa sýnt mikinn styrk í  krefjandi efnahagsumhverfi, með auknu kostnaðaraðhaldi hefur þeim tekist að skila hagnaði og viðhalda sterku sjóðsstreymi . Við erum þakklát því trausti sem lánveitendur hafa sýnt okkur.  Í rekstri Eyrir, sem og í aðkomu okkar að rekstri lykileigna, höfum við ávallt lagt ríka áherslu á skýra stefnu, gegnsæjan rekstur og ábyrga fjármögnun.   Marel, Össur og Stork eru öll vel fjármögnuð til lengri tíma, með firnasterka samkeppnisstöðu og eru nú í lykilstöðu til að skapa hluthafaverðmæti“