Útgerðarfélagið Guðmundur Runólfsson hf., staðsett í Grundarfirði, hagnaðist um 4,6 milljónir króna á síðasta ári. Stjórn félagsins, sem telur þrettán manns, lagði til að 150 milljónir króna yrðu greiddar í arð til hluthafa en þeir eru tíu talsins.

Tekjurfélagsins námu 2,3 milljörðum króna og jukust um 300 milljónir milli ára. Kostnaðarverð seldra vara hækkaði um rúmlega 80 milljónir milli ára. Rekstrarhagnaður var tæpar 540 milljónir króna og stóð í stað sökum þess að aðrar tekjur utan rekstrar drógust saman um tæpar 220 milljónir. Gengismunur fór ansi illa með félagið í ár en hann var neikvæður um 444 milljónir. Sökum þess var endanleg afkoma 4,6 milljón króna hagnaður samanborið við 339 milljón króna hagnað árið á undan.

Eignir félagsins voru metnar á tæplega 6,3 milljarða króna í árslok en þar af voru fastafjármunir metnir á vel á sjötta milljarð. Eigið fé var tæpir tveir milljarðar króna í árslok og þar af var óráðstafað eigið fé tæpir 1,8 milljarðar. Langtímaskuldir námu 3,8 milljörðum, félagið endurfjármagnaði eldri skuldir árið 2019 og ber að gera þær upp að fullu árið 2024, og skammtímaskuldir 457 milljónum.

Meðalfjöldi stöðugilda hækkaði á árinu, úr 82 árið 2019 í 95 árið 2020. Laun og launatengdgjöld námu 923 milljónum króna og hækkuðu um tæplega 80 milljónir milli ára.

Í skýringum við ársreikning félagsins kemur fram að faraldurinn hafi lítil áhrif haft á rekstur og reikningsskil og það hafi ekki nýtt sér nein úrræði sem stjórnvöld buðu upp á. Vænt áhrif á innheimtanleika krafna eru metin óveruleg.