Hún er ansi dökk myndin sem spár Seðlabankans draga upp í nýjustu útgáfu Peningamála. Gríðarleg óvissa ríkir um framvindu efnahagsmála þessa dagana, og þá sérstaklega hvað varðar gengisþróun krónunnar, en hvernig sú þróun verður mun án efa hafa úrslitaáhrif á þá framvindu. Þessi óvissa endurspeglast í nýjum spám Seðlabanka Íslands, sem birtar voru í gær í nóvemberhefti Peningamála.

Í ljósi þess að mikilvægar miðlunarleiðir peningastefnunnar urðu að miklu leyti óvirkar eftir greiðsluþrot bankanna getur Seðlabankinn ekki birt spár með sama hætti og gert hefur verið undanfarin ár, þ.e.a.s að birta stýrivaxtaferil sem talinn er best fallinn til að ná verðbólgumarkmiðinu. Í Peningamálum segir m.a.: „... verðbólgumarkmið Seðlabankans hefur beðið hnekki og tæpast verður haldið áfram á grundvelli þess eins á næstu mánuðum.“ Í gærmorgun barst tilkynning þess efnis að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum, í 18%.

Stýrivextir munu á næstu mánuðum taka mið af gengisþróun krónunnar sem er, eins og áður segir, mikilli óvissu bundin. Í ritinu segir: „Þótt gengi krónunnar fái tímabundið aukið vægi við vaxtaákvarðanir er einhliða fastgengisstefna ekki á döfinni.“ Sem kunnugt er mótast stefnan í efnahagsmálum nú í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í Peningamálum segir að verðbólgumarkmið Seðlabankans sé formlega áfram í gildi en að við núverandi aðstæður sé ógerlegt að byggja ákvarðanir á því einu.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .