Samkvæmt uppgjöri Skipta fyrir síðasta ár jókst salan um 6,3 milljarða króna á milli ára eða um 19% og nam 39,0 milljörðum króna samanborið við 32,7 milljarða árið áður. Ástæðan er fyrst og fremst aukning erlendra tekna en þær námu um 12,3 milljörðum á seinasta ári, samanborið við um 6,7 milljarða árið áður.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 10,1 milljarði króna samanborið við 9,0 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 9,0 milljörðum króna samanborið við 9,5 milljarða árið áður. Tap af rekstrinum nam 6,4 milljörðum. Óhagstæð gengisþróun íslensku krónunnar skýrir að miklu leyti tap félagsins, þrátt fyrir gengisvarnir, auk virðisrýrnunar óefnislegra eigna.